– hvernig ég fylltist löngun og vilja.
Gyða Guttormsdóttir, grunnskólakennari skrifar um reynslu sína af markþjálfun:
Það að stíga út fyrir þægindarammann og panta viðtal í markþjálfun var svo sannarlega skref í rétta átt. Eftir hvert samtal hef ég skrifað niður hugleiðingar um líðan mína og þegar ég les þær yfir sé ég enn betur hvað þessi viðtöl hafa gert mér gott.
Það er svo gott að deila með góðum hlustanda vangaveltum sínum og fá á móti krefjandi spurningar sem fá mann til að hugsa og skoða sjálfan sig frá öðru sjónarhorni.
Frá ótta til löngunar og betri líðan
Ég viðurkenni fúslega að þessum samtölum hefur fylgt stress eða ótti við að grufla svona í sjálfri mér en jafnframt hefur það verið svo hollt og gott.
Eftir hvert samtal hefur mér samt liðið afar vel og stressið/óttinn smátt og smátt vikið fyrir betri líðan og nú hlakka ég til næsta samtals.
Ég hef fyllst löngun og vilja til að bæta úr og breyta, hugsa og gera hluti á annan og jákvæðari hátt og vona svo sannarlega að ég nái að sýna það í verki.
Þegar ég fór í fyrsta viðtalið voru alls kyns tilfinningar búnar að vera að brjótast um í mér og sumar hverjar átti ég erfitt með að skilgreina eða átta mig á. Andlega hafði mér oft liðið betur og mikið og langvarandi álag átti sinn þátt í því.
Smátt og smátt opnaðist fyrir mér, eða kannski frekar það að ég viðurkenndi, hvaða tilfinningar höfðu verið að leika mig verst. Það var eins og ég hefði losnað úr fjötrum við þessa uppgötvun og tilfinningar eins og einmanaleiki, afbrýðissemi/öfund og biturð flugu burt.
Ég fór að horfa á það og þá öðrum augum, sem höfðu vakið upp þessa líðan. Ég tók hlutina ekki lengur inn á mig og náði ákveðinni sátt við stöðu mína og mig sjálfa.
Á sama tíma var ég að prufukeyra verkefni í jákvæðri sálfræði með nemendum mínum með áherslu á styrkleika þeirra og jákvæða og neikvæða hegðun/framkomu. Þarna small eitthvað saman, mín eigin sjálfskoðun og á sama tíma að vera að leiða nemendur mína í gegnum verkefni sem krafðist þess sama af þeim.
Það að sjá hversu einlæg og opin börnin voru í sinni sjálfskoðun hjálpaði mér og hvatti mig til þess sama.
Þakklát fyrir verkfærin og mæli hiklaust með aðstoðinni
Ég trúi því að sumt eigi að gerast og í þessu tilfelli er ég viss um að svo hafi verið. Mikið sem ég er þakklát fyrir að þessi verkfæri, viðtölin við Ölmu og jákvæða sálfræðin, skuli hafa komið upp í hendurnar á mér á svipuðum tíma, þau raðast svona vel saman og hafi leitt mig á nýjar og góðar slóðir sem ég er enn að kanna.
1000 þakkir Alma fyrir að leiða mig áfram :*
Mæli hiklaust með því fyrir ykkur hin að stíga skrefið og fá aðstoð til að nálgast ykkar mark hafið þið ekki náð því nú þegar.
Comments