top of page
Search
  • Writer's picturealma.is

Þegar hugurinn vaknar af dvala

– saga úr steinasafni mínu.


Sigríður Gunnarsdóttir starfsráðgjafi, skrifar um upplifun sína af markþjálfun:


Ég er hrifin af markþjálfun. Ég nota markþjálfunina til að restarta sjálfri mér. Ég á það til að trassa hluti og því lengur sem hlutirnir eru trassaðir þeim mun erfiðara er að koma sér af stað aftur. Þetta þurfa ekki að vera merkilegir eða flóknir hlutir.


Tökum sem dæmi: Ég hafði ekki farið út að ganga, í sund eða stundað neina markvissa hreyfingu í fjóra mánuði, kom mér bara ekki út úr dyrunum. Eftir eitt svona doðakast dreif ég mig í markþjálfun til Ölmu J. Árnadóttur. Það koma engar lausnir á silfurfati en með vissum spurningum og kanski svolítið krefjandi sem markþjálfinn spyr, byrjar að rofa til.

Spurningin gæti verið „Hvað myndi það gefa þér ef þú byrjaðir aftur að stunda hreyfingu?“ Spurningin ýtir við mér og minnir mig á hvað mér finnst dásamlegt að fara út að ganga.


Í sameiningu veltum ég og markþjálfinn fyrir okkur hinum ýmsu spurningum og smá saman, eins og fyrir örlitla töfra, fóru augun að opnast og hugurinn að virka betur. Markþjálfun hefur þau áhrif á mig að það lifnar einhver hvati, löngun til að vakna af dvala.

Ég var búin að vera í nokkrum tímum hjá Ölmu þegar ég ákvað að sýna henni smá af steinasafninu mínu sem ég eins og margir aðrir burðast með á bakinu. Ég valdi einn stein neðarlega úr bakpokanum.Þetta er steinasagan mín


Fyrir fjöldamörgum árum fékk ég sendar tvær innbundnar ljóðabækur skreyttar með dásamlegum vatnslitamyndum. Það var norskur vinur minn ljóðskáld sem sendi mér þær. Fyrir þessar ljóðabækur hafði ég aldrei þakkað.


Vinur minn flutti frá Noregi og ég tapaði öllum tengslum við hann. Ljóðabækurnar stóðu í bókahillunni minni og í hvert skipti sem ég sá bækurnar hugsaði ég: Fyrir þessar bækur hefur þú aldrei þakkað. Reyndar færði ég bækurnar til svo ég þyrfti ekki að sjá þær. Ég sagði Ölmu að mig langaði svo til að losa mig við þennan stein.


Ég hafði reynt að finna slóð vinar míns á Facebook og Google en ekkert gekk. Alma setti fram spurningar eins og; hvað ég ætli mér langan tíma í leitina, hvar ég ætli að byrja og hvernig samskiptin eigi að fara fram. Markþjálfinn ýtir stöðugt við mér og ég er ekki bara ein við eldhúsborðið að hugsa.


Þá kemur það sem ég kalla pínulitlir töfrar. Það er þetta sem heillar mig svo við markþjálfun. Hugurinn fer að virka og ég sé fyrir mér á hverju ég ætla að byrja og hvernig aðgerðin endar með símtali þar sem ég get þakkað fyrir mig.

Allt gekk þetta upp. Ég var svo full af eldmóði að það tók mig bara tvo daga að finna símanúmerið hjá vini mínum ljóðskáldinu. Ég hafði reyndar alveg gleymt að rifja upp hvað ég ætlaði að segja þegar ég næði sambandi við þennan vin minn sem ég hafði ekki heyrt í yfir 20 ár.

Ég hefði ekki mátt vera seinna á ferðinni því hann beið dauða síns. Við áttum gott spjall og ég sagði honum hvað mér þætti vænt um bækurnar sem hann hafði sent mér fyrir rúmum 15 árum. Það gladdi hann mjög að ég skyldi hringja og þakka fyrir bækurnar.


Í lok samtalsins átti ég orðið erfitt með að skilja hann, röddin var svo veik. Það síðasta sem ég heyrði hann segja var að hann reiknaði ekki með því að við heyrðumst aftur.


Ég tók steininn úr bakpokanum mínum og lagði hann í blómabeðið úti í garði.


Ég þakka markþjálfanum mínum henni Ölmu fyrir að hafa aðstoðað mig við að klára verk sem ég hafði trassað í 15 ár og mátti ekki tæpara standa.


181 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page