Alma J. Árnadóttir, markþjálfi skrifar um ólíkar forsendur og nálganir í markþjálfasamtölum:
Orðatiltækið að skrifa eitthvað í sandinn á við um það sem er ótryggt eða ekki varanlegt.
Í þránni eftir einhverskonar breytingu er eitt að vera með fögur fyrirheit en allt önnur saga að fylgja þeim eftir og festa breytingar í sessi. Draumsýn sem skrifuð er í sandinn getur þannig auðveldlega fokið út í buskann í næstu vindhviðu eða skolast burt með nýrri öldu.
Úthald og árangur byggir á fleiru en einföldum löngunum til að breyta eða gera betur og þar koma verkfæri markþjálfans að góðum notum. Þeir sem hafa komið til mín hafa allir verið sammála um að utanumhaldið og eftirfylgnin hafi verið lykilþáttur í að komast úr sporunum og láta verkin tala.
Ellefu neikvæðar staðhæfingar
Ef þú kannast við þann vanmátt sem fylgir þeim hindrunum sem taldar eru upp hér að neðan, gæti markþjálfun verið eitthvað fyrir þig.
Það er gjá á milli lífsins sem þú þráir og þess sem þú lifir því það sem þú gerir leiðir þig ekki að þeirri útkomu sem þú vilt fá.
Þér finnst þú geta gert betur og eiga betra skilið en óttast að gera mistök eða veist ekki hvar á að bera niður.
Þú treystir ekki ákvörðum þínum og skortir úthald til að fylgja þeim eftir
Þig skortir drifkraft og finnur ekki tilganginn.
Þú setur meiri orku í að hugsa um það sem þú vilt forðast en að beina athyglinni að því sem þú vilt öðlast.
Þú þekkir ekki eða nýtir ekki styrkleika þína til aukinna lífsgæða og hamingju.
Álit eða kröfur annarra skipta þig meira máli en þínar eigin.
Þú hefur ekki stjórn á aðstæðum og finnur ekki þína leið.
Þig skortir kjark til að aðhafast og standa á þínu.
Þig vantar hvatningu og aðhald.
Þú sérð ekki drauminn fyrir hindrunum.
Ellefu jákvæðar staðhæfingar
Vilt þú snúa vörn í sókn, fá aðstoð við að valdeflast og hafa meðvituð áhrif á þína framtíð? Ef einhver af eftirtöldum jákvæðu staðhæfingum talar til þín, átt þú sannarlega erindi í markþjálfun.
Þú vilt fá aðstoð við að finna leiðir til gera það sem hugurinn stendur til.
Þér finnst þú geta gert betur, eiga betra skilið og vilt komast yfir huglægar hindranir.
Þú vilt taka réttar ákvarðanir og hafa úthald til að fylgja þeim eftir.
Þú vilt öðlast drifkraft, lifa þín gildi og finna tilganginn.
Þú vilt beina athyglinni að tækifærunum og því sem þig dreymir um.
Þú vilt þekkja og nýta styrkleika þína til aukinna lífsgæða.
Þú vilt upplifa að þitt eigið álit og kröfur skipti þig meira máli en annarra.
Þig langar að taka stjórn á eigin lífi og finna þína leið.
Þú vilt öðlast kjark til að aðhafast og standa á þínu.
Þú þarfnast hvatningar og aðhalds.
Þú vilt öðlast skýra sýn, taka stefnu og ná árangri.
Comments