top of page
Search
  • Writer's picturealma.is

Að gefa sér tíma að gjöf

Alma J. Árnadóttir, markþjálfi skrifar um tímaspursmál nútímans:Það getur verið flókið mál að skilgreina tímann. Sumir halda því fram að tíminn sé peningar á meðan aðrir segja að hann sé afstæður. Margir eru á því að tíminn sé hverfull og lang flestir telja hann dýrmætan.


Eitt vitum við fyrir víst og það er að tíminn sem okkur er úthlutað í þessu lífi er hvorki óþrjótandi auðlind né getur hann staðið í stað.


Hvernig ferðu með þau verðmæti sem tími þinn er?


Við mælum og skynjum tímann með mismunandi hætti á ólíkum æviskeiðum og hvort sem við tölum um að nýta tímann, eyða honum eða jafnvel drepa hann, þekkjum við allt of mörg þá tilfinningu að vera í kappi við hann flesta daga – fylla dagskrána okkar af mis hagnýtum gjörðum og skylduverkefnum sem álitamál getur verið um hvort þjóni raunverulegum tilgangi.


Þetta gerum við ýmist gegn betri vitund, ómeðvitað eða af hreinum ótta við að mistakast við önnur og háleitari markmið.


„Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs" segir í ljóðlínu eftir Stein Steinarr. Ljóðið er tregablandinn vitnisburður um tilfinningar manns, uppfullt af söknuði og eftirsjá eftir því sem aldrei varð.

Í stað þess að miða athafnir okkar við það sem nærir andann og þá stefnu sem við viljum taka í lífinu, eigum við það til að festast í viðjum vanans, hætta að spyrja okkur áleitinna spurninga og missa tilfinningu fyrir því sem okkur áður dreymdi um.


Vitundin um sannan tilgang er að lokum sett á ís, hamsturinn hlekkjaður við hamsturshjólið og lífinu eins og við þráum það slegið á frest. Mögulega tökum við ekki afleiðingunum, fyrr en seinna.


Hversu mikla stjórn geturðu haft á tíma þínum?

Þér er óhætt að trúa því að það þurfa ekki að vera örlög þín að vera á sjálfstýringu út ævina, þú átt meira inni. Það er engin ástæða til að lifa í tilfinningalegri flatneskju, brenna upp né lifa lífinu í söknuði og eftirsjá.


Hafirðu týnt þræðinum eða ert ekki viss um að hafa nokkurn tímann haft hann í hendi, gæti heimsókn til markþjálfa verið upphafið að áhrifaríku umbreytingarferli fyrir þig.


Manneskjunni er eðlislægt að leita eftir lífsgæðum en tilfinningin fyrir því hvað er eftirsóknarvert og raunsætt í þeim efnum getur verið misvísandi og mismunandi frá einum tíma til annars. Við tölum um gæðatíma þegar það sem við ástundum og veitum athygli, gefur orku og lífsfyllingu til baka.


Það er þessi tími þegar við erum að næra okkur sjálf og veita tilfinningunni sem það gefur, eftirtekt. Við leyfum okkur jafnvel að staldra við og vera, ekki aðeins gera. Tími til að anda að sér og njóta hér og nú.

Þær eru oft stolnar þesskonar gæðastundir þar sem við eigum í hvað mestri snertingu við okkur sjálf, sparidagar eða brot úr degi þar sem örlar á raunverulegum tilgangi.


Eins og með allt sem við viljum bæta inn í lífið og leggja lag okkar við, er nauðsynlegt að búa til rými fyrir nýja nálgun og breyttar áherslur, ekki aðeins í tíma heldur líka í huga okkar. Að breyta tímaplani og forgangsraða upp á nýtt er því stærra og meira en aðeins ákvörðun að taka.


Hvernig kortleggurðu hvernig þú vilt verja þínum tíma?


Draumar eru aðeins vonir og langanir allt þangað til við setjum þá niður fyrir okkur í áföngum, virkjum drifkraftinn og finnum leið í gegnum mögulegar hindranir. Reynslan sýnir að á þessum forsendum geta draumar lifnað við.


Sem markþjálfi hef ég orðið vitni að kraftaverkum – verkum sem hafa orðið til í krafti þeirra sem komið hafa til mín og fengið ráðrúm til að finna sínar eigin leiðir til að lifa sinn draum.

Það útheimtir einbeittan hug og góða yfirsýn að elta drauminn sinn. Sá sem heiðrar tímann upplifir aldrei að hafa sólundað honum. Ég hef spurt fólk sem veigrar sér við að leita faglegrar aðstoðar markþjálfa til að taka skrefin sem það dreymir um, hvað það sé tilbúið að gera til að taka frá stund og fjárfesta í sjálfu sér.


Hvaða fórnir það teldi sig þurfa að færa og hvaða þýðingu það myndi hafa á móti að ná þeim árangri sem það þráir.


Ég hef raunverulega spurt fólk að því hvort það tími að gefa sjálfu sér tíma að gjöf.


Draumur eða veruleiki? Þú átt val


287 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page