top of page
Search
  • Writer's picturealma.is

Viljinn í sambandinu

– Matti Ósvald, PCC markþjálfi og heildrænn heilsufræðingur svarar hér spurningum mínum um samskipti í nánum samböndum.


Í markþjálfasamtölum mínum kemur það ósjaldan fyrir að fólk beini athyglinni að samskiptum og þá ekki síst að samskiptum við makann, ef hann er inni í myndinni. Þannig samtöl reyna á hæfni mína sem markþjálfa til að halda viðkomandi við sinn hlut að máli, ekki síst þegar hann upplifir að makinn „sé vandamálið”. Undantekningarlaust reynist fólki nóg að eiga við sinn eigin vilja, hegðun og viðbrögð enda kemur fljótt upp úr dúrnum að ekki er á færi nokkurs manns að breyta annarri manneskju.


Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir sem persónur eru gjarnan samofnar fólki í nánasta umhverfi okkar en í einstaklingsmarkþjálfun snýst samtalið ávallt um hvað einstaklingurinn vill í staðinn fyrir það sem hann vill ekki og hvað hann getur sjálfur gert til að laða fram breytingarnar. Oft þarf tvo til svo hlutirnir fari að breytast og í þeim tilfellum getur verið áhrifaríkara að fá báða aðila að borðinu samtímis, í svokallaða paramarkþjálfun. Í þesskonar samtalstímum hefur parið komið sér saman um viðfangsefni sem báðir aðilar vilja skoða nánar sem einstaklingar en um leið að velta því fyrir sér sem par.


Ég hef mælt mér mót við Matta Ósvald, leiðbeinanda minn úr framhaldsnáminu í markþjálfun, til að rekja úr honum garnirnar um þessi mál en hann hefur heilmikla reynslu af því að vinna með samskipti í nánum samböndum.


Matti tekur hlýlega á móti mér á stofunni sinni í miðbæ Hafnarfjarðar og ég finn strax á fyrstu orðaskiptum okkar að ég er á réttum stað með að fá alltumlykjandi sjónarhorn á vangaveltur mínar um efnið. Að heyra Matta tala er eins og að hlusta á rödd skynseminnar - en í mínum skilningi felur skyn-semi, annað og meira í sér en að hugsa í rökum og staðreyndum. Svör Matta við spurningum mínum reynast í senn beinskeytt, einlæg og full af visku. Um leið og ég hlusta átta ég mig á að ég hef fáa karlmenn heyrt, sem leggja sig jafn mikið fram og hann um að tengja huga sinn beint inn að hjarta, í leit að svari við hverri spurningu.


Hér á eftir fer fyrri hluti viðtals sem verður birt í tveimur pistlum.


_______________



Hver er munurinn á paramarkþjálfun og pararáðgjöf?


Ég myndi segja að hann væri sami og grundvallarmunurinn er á ráðgjöf og markþjálfun. Í ráðgjöf væri verið að ráðleggja pörum með aðferðir, benda á hvað það gæti gert og máta það við eitthvað sem maður veit að gæti virkað.


Í markþjálfun væri meira verið að spyrja hvað parið vill, af hverju það vill það og hjálpa því við að búa til þá sviðsmynd sem það vill fá í staðinn fyrir þá sem er fyrir. Í markþjálfun væri verið að ýta á parið með að taka sjálf ábyrgð á sínum vilja og persónulega myndi ég ganga harðar fram við að tékka á því hver viljinn raunverulega er og hvort báðir aðilar vilji eignarhald á honum.


Í stuttu máli: Eignaðu þér það eða ekki og hættu að tala um það ef þú vilt ekki gera það.

Hvernig gagnast markþjálfun best pörum sem eiga í samskiptaörðugleikum eða í samböndum sem hafa strandað?


Það er tvennt sem kemur í hugann. Annarsvegar þetta: „Stoppaðu og hlustaðu á hvað makinn er að segja við þig”, sem sagt að hjálpa þeim að hlusta á hvort annað og þýða kannske kvennatungumál yfir á karlatungumál eftir atvikum. Þegar ég er með pör í samtali þá heyri ég þegar annar aðilinn hlustar ekki.


Hinsvegar að færa athyglina af vanlíðaninni og því sem er að, yfir á hvað parið vill í staðinn og spyrja hvort það sé í alvöru til í það, því eins og ég kom að áðan þá má alveg hætta þessu. Það þarf ekki að gera neitt sem ekki er löngun til að gera.


Eitt af því sem markþjálfun gerir er að draga hugann út úr líðan, erfiðleikum eða aðstæðum og leyfa honum að fara áfram og segja: „Ef ég myndi geta skapað eitthvað nýtt, hvernig myndi það þá líta út?”.


Með þessu er verið að kippa parinu út úr því hugarfari sem það er fast í, og er oft stærra vandamál en sjálft sambandið, og færa athyglina yfir á það sem það vill í staðinn.

Þannig er markþjálfinn að draga parið upp úr holunni og fara með það í útsýnistúr.


Er þá hægt að eiga nýja byrjun í sama sambandi?


Stutta svarið og alveg skýrt í mínum huga er já, ef þú hefur hugrekki til að enda það gamla! Að byrja nýtt samband með sama aðila og segja: „Þetta heldur ekki áfram en ég vil þig og ég vil annað” kallar á einhverja sátt. Þarna held ég að ástríðan liggi - í einhverri hugsun og tilfinningu um að ég vilji segja skilið við það sem ekki gengur en vilji vera hérna og vilji vera það með þér.


Að vera tilbúin í að enda það gamla og vita hvernig nýtt á að líta út, kallar á hugrekki beggja til að hugsa það, segja það og framkvæma það.

Esther Perell, þekktur hjónabandsráðgjafi, sagði eitt sinn, að hún væri búin að vera í þremur hjónaböndum, öll með sama manninum. Þetta finnst mér ótrúlega falleg hugsun. Það þarf ekki endilega að skipta um aðila en það krefst brútal heiðarleika að enda þannig samband og hefja nýtt saman. Með því að vera sífellt í einhverri vörn og ekki tilbúin til að opna sig fyrir hvoru öðru, takmarka pörin sambandið. Ástríðan er ekki á yfirborðinu og til að hægt sé að byrja nýtt þarf fólk að fara djúpt inn að kjarna hjá sér og sýna hugrekki til að vera berskjaldað gagnvart hvort öðru.


Með viljann að vopni, eiga þá öll sambönd von?


Ekkert endilega en það eru nokkur atriði sem ég held að þurfi að vera til staðar svo samband eigi von. Eitt er þessi vilji. Það eru til margar skilgreiningar, þúsundir bíómynda og milljónir laga um ást. Til að svara þessu frekar vil ég fara beint í bestu skilgreininguna sem ég hef heyrt á því hvað það þýðir að elska einhvern í alvörunni og nota þá skilgreiningu sem áttavita þarna.


Skilgreiningin kemur úr bók sem heitir Leiðin til andlegs þroska (The Road Less Traveled) og er eftir Scott Peck. Þar segir að það að elska sé löngunin til að beita sér fyrir því að önnur manneskja og þú „vaxi í allt sem þið getið orðið”. Rétt eins og að vilja þennan vöxt fyrir barnið sem bablar þá finnst mér þessi tilfinning verða að vera til staðar fyrir makann líka.


Viltu að maki þinn geti vaxið í allt sem hann getur orðið og ef ekki, af hverju ættuð þið þá að vera saman?

Að vilja styðja hvort annað í því að vaxa og gefa hvoru öðru frelsi, pláss og stuðning til að tækla allan ótta og óöryggi sem kemur upp - ef þú ert til í þetta og hefur þessa tilfinningu fyrir elskunni þinni þá á sambandið sér von.


Ég held að oft hafi báðir aðilar þessa tilfinningu fyrir hvort öðru en hún týnist í allskonar öðru veseni, hversdagsleika og áhyggjum sem fylgir því að lifa saman - og fólk spyr sig ekki að því hvað það vill fyrir hinn aðilann. Kannske er alveg til í dæminu að til að þessi manneskja geti vaxið, þurfirðu að sleppa henni og leyfa henni að fara annað. Þá er spurning hvort þú elskir hana nógu mikið til þess að sleppa takinu.


Þegar fólk spyr sig ekki að því hvað það vill fyrir maka sinn, verður sambandið eins og viðskipti. Margt sem fólk kallar ást í dag, minnir meira á viðskiptasamning eða einhverskonar baráttu en ástarsamband: „Ef þú gerir þetta fyrir mig, þá geri ég þetta fyrir þig - ef þú gerir þetta ekki fyrir mig, þá verð ég fúll út í þig”.


1,767 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page