top of page
Search
  • Writer's picturealma.is

Nándin í sambandinu

– Matti Ósvald, PCC markþjálfi og heildrænn heilsufræðingur svarar hér spurningum mínum um samskipti í nánum samböndum.Hér á eftir fer seinni hluti viðtals míns við Matta Ósvald en fyrri hlutann má lesa hér


Áður hafði Matti rætt um „viljann í sambandinu" og hversu miklu máli það skipti fyrir pör að staldra við og hlusta fyrir alvöru á hvað makinn er að segja.


Í þessum síðari hluta beinum við sjónum að því hvernig nándin birtist í samböndum og hvernig er mögulegt að hlúa betur að henni. Við skoðum í því samhengi hvernig hreinskilni og hugrekki í samskiptum gegnir lykilhlutverki í að færa pör nær hvoru öðru og koma í veg fyrir misskilning.


Sem fyrr kem ég ekki að tómum kofanum hjá viðmælanda mínum sem er ófeiminn við að velta við steinum og koma með ágengt sjónarhorn á viðkvæmustu málefni. Svörin við spurningum mínum um efnið byggir hann á þekkingu og ómældri reynslu af samtölum við pör sem vilja betri upplifun í samböndum sínum, þar sem mismunandi áskoranir virðast að einhverju leyti bundnar við kynin. Hér talar Matti af næmni og virðingu fyrir því sem sameinað getur ólíka einstaklinga og eins því sem skilur þá að.


__________________Getur verið heilbrigt að takast á við maka sinn?


Það er yfirleitt hættumerki ef fólk segir að það rífist aldrei. Oft kemur upp úr kafinu eftir skilnað, að rifrildi hafi aldrei átt sér stað. Ef fólk rífst meirihlutann af tímanum þarf auðvitað að skoða forsendur sambandsins en ef fólk getur ekki tekist á, á heilbrigðan hátt og sagt sannleikann eins og hann er, þá er nándin í ástinni ekki möguleg. Við karlmenn erum margir hræddir við að segja satt og getum oft bætt okkur í þessu. Ef þessi nánd fer, þá dofna samskiptin á löngum tíma.


Að takast á er því stundum nauðsynlegt til þess að draga ástríðuna fram. Þegar er ósætti og eitthvað er ósagt, fer fólk gjarnan að verjast og loka sig af.


Ég er ekki að tala um að pör þurfi alltaf að vera að rífast til þess að ná að sættast, heldur er ég að meina að það geti verið heilbrigt að takast á af hreinskilni, væntumþykju og virðingu.

Að það sé leiðin að ástríðunni þar sem tilfinningin um nánd er til staðar og ég finn að ég get treyst þér fyrir mér og geti sagt eins og er - ég megi vera erfiður en þú elskir mig samt. Sem manneskja geti ég fengið að vera ég sjálf, hreinskilin og trú sjálfri mér.


Það hefur mikil áhrif hvernig fólk er alið upp. Á sumum heimilum er tekist á og öðrum aldrei. Þegar fólk af ólíkum heimilum mætist í samböndum verða sumir dauðskelkaðir við átök á meðan aðrir eru vanir þeim, sem þýðir mismunandi upplifun á því hvað er um að vera.


Heilt yfir held ég að þessi brútal hreinskilni sem ég nefndi áður, verði alltaf forsendan fyrir því að sambönd geti verið sönn, heiðarleg og þess virði að vera í.


Af hverju er hreinskilni og hugrekki mikilvægt í tjáskiptum um eldfim málefni?


Það er mikilvægt að við séum hreinskilin og bökkum ekki frá því að segja satt og höfum hugrekki til að koma því sem við viljum til skila.


Ef annar aðilinn er hræddur við að segja eins og er þá veit hinn aldrei hvað er verið að eiga við og það flækir málin. Það er þetta sem veldur oft misskilningnum og því að fólk fer að lesa vitlaust í aðstæður.

Ef pör hafa aftur á móti hreinskilni og hugrekki að leiðarljósi þá geta þau sagt eins og er; „Ég er hrædd/ur um að…” og þá er allt annað að eiga við það. Þetta er grundvöllurinn að góðri niðurstöðu. Með því að gera makanum ljóst um hvað ræðir erum við að forða sambandinu frá frekari sársauka eða einhverju enn verra.


Er eitthvað fleira en hreinskilni sem getur fyrirbyggt misskilning í samböndum og komið í veg fyrir óheppilegt tjáningarmynstur?


Já, með því að taka fyrir allt sem heitir hugsanalestur og skáldsögur þá fyrirbyggjum við misskilning. Við erum svo fljót að álykta og búum oft til heilu skáldsögurnar í huganum um hvað er að gerast og hvað þetta og hitt þýðir. Fólk á það til að líða alveg skelfilega með svona hugsanir og svo er ekkert til í þeim. Ég held að málið snúist alltaf um þessa æfingu, að fara beint í samtal um það sem kemur upp, vera forvitin og sleppa því að skálda upp sögur og leggja meiningu í þær.


Svo má líkja sambandinu við blóm - fær það næga vökvun eða getur það lifað án þess?


Við getum spurt okkur hvort við gefum okkur tíma til að ræða hlutina og hvort sambandið fái næga athygli þannig að við séum að rækta það og sjá til þess að samskiptin séu eins og við viljum hafa þau.


Erum við sanngjörn við sambandið þegar við ætlumst til þess að að allt sé í blóma á meðan við tölum aldrei saman og erum við að ætlast til þess að eiga dásamlegt kynlíf með nánd þegar við burðumst með ósætti sem við tökum aldrei á?

Þarna kemur uppeldið líka inn í munstrið og hefur áhrif á hvernig við tæklum hluti og tölum um þá. Það getur verið góð æfing að skoða hvað virkar, hvað virkar ekki í samskiptunum og hvað við getum bætt - hreinlega setjast niður til að ræða samskiptamunstrið í staðinn fyrir að eiga öll samtöl á hlaupum í og úr vinnu eða þegar við leggjumst niður þreytt á kvöldin.


Er munur á kynjunum þegar kemur að skilningi þeirra á nánd?


Heiðarlega svarið er að ég veit það ekki. Ég get ekki ímyndað mér annað en að fyrir alla þýði nánd; örugg, einlæg og náin nærvera. Forsendurnar fyrir henni held ég þó að geti verið ólíkar hjá konum og körlum. Ég veit að það er ekki algilt en mögulega er tilfinningalegt og líkamlegt öryggi miklu stærra orð fyrir konur.


Reynslan úr samtölum við konur segir mér að veruleiki þeirra er annar og það er eins og öryggið þurfi að vera meira til staðar í tengslum við nándina. Konur fylgjast með merkjum um hvort þær eru öruggar og hvort tengingin er í lagi.

Ég held að karlmenn velti þessu ekki eins fyrir sér og oft nægi þeim að sjá makann til að langa í nánd. Það er engin fyrirstaða og þessi atriði um öryggi og tengingu flækist ekki eins fyrir þeim. Kannske eru konur passasamari en karlar hvað þetta varðar.


Það er meiri ásókn í konur en karla og konur eru í vandræðum út af því um allan heim. Það er augljóst því annars væri ekkert Mee Too. Það er veist meira að þeim og þær þurfa að verjast meira. Ég hef sagt það áður að mér er fyrirmunað að skilja af hverju konur fatta ekki hvað þær eru mikilvægar. Þær eru lykilpersónur en tala sig samt niður og hika við að biðja um há laun. Þær eru gyðjan, guð í kvenmannslíki, sterkar, frábærar og ekki síst mikilvægar en eru stöðugt að minnka sig að ástæðulausu.


Samkvæmt sálfræðirannsóknum John Gottman hafa konur alltaf þurft að treysta meira á eitthvað utanaðkomandi; stundum á karlmenn og stundum á aðstæður eða annað, til að vera öruggar. Það virðist ekki hafa verið nein leið framhjá því og þannig kannske alveg skiljanlegt að öryggið sé þeim svo mikilvægt miðað við það sem þær eru að eiga við.


Er heppilegt að eiga eigið stuðningsnet, óháð makanum?


Upp í huga mér kemur það sem Áslaug Kristjánsdóttir hjúkrunar- og kynfræðingur talar oft um, að eitt það versta sem fólk gerir í samböndum er að ætlast til þess að makinn sinni öllum hlutverkum. Ég myndi segja að það sé mjög mikilvægt að sækja í stuðningsnet sem er fyrir utan og karlmenn gera minna af því en konur. Rannsóknir hafa sýnt það. Þeir eiga vini en viðhalda ekki eins stuðningsneti og konur vinna að allt sitt líf. Þeir eru meira í tengslaneti sem er örlítið fjær en náið stuðningsnet.


Þegar makinn sér um líkamlegar- og tilfinningalegar þarfir og er eini félaginn og trúnaðarvinurinn sem tekur öll erfiðu samskiptin, þá er hann einn um stuðninginn að öllu leyti. Ef makinn þarf að sinna þessu öllu þá er erfitt að hafa rými til þess að njóta þess bara að vera saman. Þannig að stuðningsnet er mikilvægt bæði fyrir karla og konur.


Það lítur út fyrir það að karmenn missi meira við skilnað en konurnar. Í því sambandi velti ég fyrir mér, hvort ætli sé mikilvægara, ást eða öryggi?

Af hverju sækja menn í konur og þá er sama hvort það er tilfinningalegs eða félagslegs eðlis, að búa með þeim, eiga börn, kynlíf eða nánd? Það er af því þar er ást og karlmenn sækja í konur fyrir ást og unað. Konur sækja líklega í karlmenn fyrir visst öryggi en ástin er í öðru sæti. Ástin og öryggið sem bæði kynin sækja í sambönd virðist af ólíkum toga. Þegar karl horfir á aðlaðandi konu þá finnur hann lífsstrauminn fara um sig. Konan er lífið sem fæðir af sér líf og hún er draumurinn um alveg ofboðslega sterka lífstilfinningu og hugsanlega einhverskonar loforð um unað.


Hvernig geta aðferðir markþjálfunar gert gott samband betra?


Fyrsta sem kemur upp í hugann er - með því að skora á fólk að hafa hugrekki til þess að taka á þeim málum sem þarf að taka á - eða ýta á fólk til að spyrja sig að því af hverju það vill ekki eitthvað og hvað það vill í staðinn. Eins og ég sagði fyrr; að skoða nýju sviðsmyndina og hvaða ábyrgð báðir aðilar ætla að taka á því að búa hana til.


Það getur verið mjög sársaukafullt þegar sambönd enda en það eru líka til sambönd sem er bara mjög gott að binda endi á, það kemur fyrir. Fólk þarf einfaldlega að spyrja sig hversu tilbúið það er til að gera það sem gera þarf.

Ég veit ekki hvort það er rétt að segja það og hvort mætti vera hluti af svarinu en það lítur út fyrir að líðan kvenna breytist hraðar en hjá körlum, líkt og með veðurbreytingar. Út af því held ég að karlar geri ekki nógu mikið af því að kalla konurnar sínar inn til heilinda - að kalla konuna inn í sambandið. Þeir láta sig bara hafa það sem gerist, í staðinn fyrir að segja við hana: „Ætlarðu að vera hérna með mér í þessu?” því auðvitað þurfa báðir aðilar að koma inn í dæmið.


Mörgum konum finnst eiginmaðurinn alls ekki vera að sinna sambandinu og samskiptunum eins og þeir gætu og þá þurfa þær að halda áfram að kalla þá inn. Karlmenn þurfa meira að mæta tilfinningalega eða koma með nærveru sína inn í sambandið, segja satt og segja hvað þeir vilja.


Markþjálfinn getur þarna hjálpað til við að gera báðum aðilum grein fyrir því hvað er á þeirra ábyrgð. Það er sjaldnast þannig að það þurfi aðeins annar aðilinn að laga sig og þá verði allt í góðu.1,681 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page